Innhverf íhugun og heilsa

Margir læknar og aðrir sérfræðingar í heilbrigðisstétt iðka sjálfir Innhverfa íhugun og ráðleggja sjúklingum hana. Hér fyrir neðan er að finna spurningar og svör lækna við þeim varðandi nokkra sjúkdóma og kvilla. Samanburðarrannsóknir á Innhverfri íhugun og öðrum aðferðum hafa sýnt að Innhverf íhugun er áhrifaríkari þegar kemur að langvarandi slökun, lækkun á magni streituhormóna í daglegu lífi og auknu heilbrigði og langlífi.

Dr. Elizabeth Young, heimilislæknir

„Ég lærði Innhverfa íhugun fyrir 25 árum sem er án alls vafa það besta sem ég hef nokkurn tíma gert. Ég veit ekki hvernig ég hefði komist af sem heimilslæknir í fullu starfi án þessarar tækni sem dregur úr streitu og hleður rafhlöðurnar. Ég hef fylgst með árangri þúsunda manna sem hafa lært Innhverfa íhugun og ég mæli hiklaust með henni."

 

Hvað er það besta sem hægt er að gera fyrir heilsuna?

Stöðugt er boðið upp á nýjar lausnir við heilsufarsvanda nútímans. Lykillinn að góðri almennri heilsu er hins vegar sá að leyfa innri greind líkamans að endurheimta jafnvægi og góða heilsu. Hvíld gerir innra heilunarkerfi líkamans kleift að ná fullri virkni. Þegar líkaminn fær ónóga hvíld er hætta á að starfsemi hans fari úrskeiðis og streitutengd vandamál geri vart við sig. Áætlað hefur verið að um 80% af öllum læknaheimsóknum séu vegna streitutengdra vandamála. Innhverf íhugun skapar djúpa hvíld sem losar á eðlilegan hátt um rótgróna streitu og þreytu. Hún stuðlar með því móti að líkamlegri endurnýjun og skilvirkari heilastarfsemi.

 

Meira en slökun – frá betri heilsu til andlegs þroska

Innhverf íhugun er slakandi en hún er mun meira. Tæknin felur í sér djúpa slökun samhliða vitundarvíkkun. Hin „vökula hvíld" sem iðkandinn upplifir gefur Innhverfri íhugun sérstöðu í samanburði við aðrar slökunaraðferðir og aðferðir sem losa um spennu eins og líkamsæfingar eða tónlist. Að íhugun lokinni tala iðkendur Innhverfrar íhugunar um að þeir finni fyrir ró, séu skýrir í hugsun og orkumiklir og upp á sitt besta. Innhverf íhugun getur stuðlað að því að skapa slíka upplifun allan daginn, dag eftir dag. Innhverf íhugun getur komið að gagni gegn ýmsum streitutengdum kvillum, s.s. mígreni, húðofnæmi, háþrýstingi, hjartverk, astma, kvíða, svefnleysi og ofnotkun áfengis, tóbaks og eiturlyfja. Dagleg iðkun Innhverfrar íhugunar stuðlar að góðri heilsu hugar, líkama og að jafnvægi tilfinninga sem leiðir til meiri gleði, hamingju og árangurs.